Frasers Group plc tilkynnti í dag að fyrirtækið muni fjölga verslunum sínum á Íslandi með opnun glænýrrar Sports Direct íþróttavöruverslunar í verslunarkjarnanum Norðurtorgi á Akureyri. Frasers Group plc hefur einnig framlengt leigusamning varðandi núverandi verslun Sports Direct í Skógarlind í Kópavogi og hefur áform um endurbætur á versluninni sem færa munu viðskiptavinum betri verslunarupplifun, að því er fram kemur í tilkynningu.

Verslun SportsDirect hefur verið til húsa í verslunarhúsnæðinu við Skógarlind 2 undanfarin tíu ár og nú hefur fyrirtækið endurnýjað leigusamning sinn við Festi hf. til tíu ára. Í Skógarlind leigir fyrirtækið ríflega 2.700 fermetra stórt rými undir starfsemi sína.

Stefnt er að opnun nýju verslunarinnar á Akureyri í sumar og þar mun Sports Direct bjóða vörur frá framleiðendum á borð við Nike, Adidas, Under Armour, ASICS og Puma. Í versluninni verður einnig að finna USC sem býður tískuþenkjandi viðskiptavinum úrval gæðafatnaðar. Verslunin verður til húsa í verslunarkjarnanum Norðurtorgi (gamla Sjafnarhúsinu) þar sem SportsDirect leigir 1.750 fermetra rými og líkt og í Kópavogi hefur fyrirtækið undirritað tíu ára leigusamning við fasteignafélagið Klettás.

Sjá einnig: Mike Ashley lætur af störfum

Breski milljarðamæringurinn Mike Ashley tilkynnti í fyrra að hann muni hætta sem framkvæmdastjóri Frasers Group, sem rekur meðal annars Sports Direct verslanirnar á Íslandi. Áætlað er að hann láti af störfum í maí á þessu ári. Ashley hefur verið umdeildur í tengslum við störf sín sem eigandi breska knattspyrnufélagsins Newcastle, en félagið var keypt af krónprins Sádi-Arabíu nú á dögunum. Ashley stofnaði Sports Direct árið 1982 og á 64% hlut í félaginu.

James France, yfirmaður fasteignamála hjá Frasers Group:

„Það er mikilvægt fyrir vöxt verslanasafns okkar að færa út kvíarnar alþjóðlega og markmið okkar er að verða leiðandi söluaðili íþróttavöru bæði í Bretlandi og Evrópu".

Styrmir Bjartur Karlsson, framkvæmdastjóri Croisette á Íslandi:

„Við erum mjög ánægð með að alþjóðlegt stórfyrirtæki á borð við Fraser Group hafi leitað aðstoðar Croisette á Íslandi, fagleg ráðgjöf til bæði leigusala og leigutaka er mikilvægur þáttur í þróun íslenska fasteignamarkaðarins".

Ragnar Sverrisson, formaður Kaupmannafélags Akureyrar:

„Það styrkir Akureyri sem verslunarstað að fá SportsDirect í bæinn. Við eigum ekki eingöngu í samkeppni við Reykjavík heldur við allan heiminn og það er mikilvægt að þessi verslun eigi sér stað hér í bænum".