Viðskipti voru stöðvuð með hlutabréf bresku íþróttavöruverslunarinnar JJB Sports í dag eftir að eigendur félagsins fengu heimild til greiðslustöðvunar. Hlutabréfin eru skráð á AIM-hliðarmarkaðinn í bresku kauphöllinni. Eigendur félagsins hafa reynt að selja reksturinn og endurfjármagna félagið. Það hefur ekki skilað tilætluðum árangri.

Verslunin hefur verið til sölu en nýverið var greint frá því að Mike Ashley, eigandi úrvalsdeildarliðsins Newcastle og sportvöruverslunarinnar Sports Direct, hefði áhuga á að kaupa reksturinn. Aðrir keppnautar JJB Sports höfðu sömuleiðis viðrað áhuga á félaginu.

Í netútgáfu Financial Times í dag segir hins vegar frá því að stefnt hafi verið að því að selja félagið allt en ekki einstakar einingar sem flestir höfðu áhuga á.

Exista keypti 29% hlut í JJB Sports um mitt ár 2007 ásamt Chris Ronnie, sem varð forstjóri fyrirtækisins. Kaupverðið nam 190 milljónum punda, jafnvirði 24 milljarða króna á gengi þess tíma. Singer & Friedlander, banki Kaupþings í Bretlandi, sá um viðskiptin og annaðist fjármögnunina. Verðmæti verslunarinnar nam einum milljarði punda um það leyti. Talsvert vatn hefur runnið til sjávar síðan þá. Gengi hlutabréfa JJB Sports stóð í 275 pensum þegar Exista kom að rekstrinum. Félagið hefur farið í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu, fyrri eigendur búnir að missa félagið úr höndum sér og gengið komið niður í 0,40 pens þegar viðskiptin voru stöðvuð.