Mainframe Industries er finnskt-íslenskt leikjafyrirtæki sem er að þróa fjölnotendatölvuleik (MMO) sem verður hannaður fyrir svokallaða skýjaspilun. Hún gerir notendum kleift að spila leikinn í hvaða tæki sem er, hvort sem það er í gegnum snjallsíma, PC tölvur og leikjatölvur. Bæði leikjavélin og netþjónn verða í skýinu sem gerir það að verkum að notendur þurfa ekki mjög öflugar tölvur til að spila leikinn og því verður hægt að ná til mun stærri hóps spilara en áður.

„Við lögðum upp með þá kenningu þegar félagið var stofnað að framundan væri bylting í því hvernig tölvuleikir eru bæði hannaðir og spilaðir með tilkomu streymisveita á borð við Xcloud frá Microsoft, Google Stadia og Amazon Luna,“ segir Þorsteinn Högni Gunnarsson, forstjóri Mainframe Industries.

„Í stað þess að hanna mismunandi útgáfur af leiknum fyrir ólíkar skjástærðir og stýrikerfi þá þróum við einn sýndarheim sem er eingöngu keyrður í skýinu. Notendur þurfa því ekki að hlaða niður leiknum heldur geta þeir einfaldlega tengst heiminum og byrjað að spila um leið. Það er sérstaklega þessi geta að streyma leik í símann sem er byltingarkennd.“

Þorsteinn stofnaði fyrirtækið ásamt tólf öðrum Íslendingum og Finnum árið 2019. Hver og einn þeirra hefur yfir 20 ára reynslu á ólíkum sviðum. Nokkrir hafa unnið við þróun leikja fyrir farsíma, aðrir við leiki fyrir borð- eða leikjatölvur og Íslendingarnir eru með sértæka þekkingu frá CCP við þróun EVE Online, sem er í sama leikjaflokki og leikurinn hjá Mainframe.

Alls starfa nú 50 manns hjá Mainframe, þar af 20 á skrifstofum fyrirtækisins í Reykjavík. Mainframe er einnig að stofna dótturfyrirtæki í Frakklandi þar sem markaðsteymi fyrirtækisins fer af stað með ráðningu á starfsfólki frá Blizzard, sem stendur á bak við World of Warcraft leikinn. „Við erum að viða að okkur meiri getu og þekkingu til að stunda útgáfustarfsemi fyrir leikinn okkar,“ segir Þorsteinn. Hann segir fyrirtækið vera í vaxtafasa og í leit að góðu starfsfólki, hér heima og erlendis.

Framleiðandi League of Legends meðal hluthafa

Í heildina hefur Mainframe fengið um 11 milljónir evra í fjármögnun frá stofnun, jafnvirði 1,6 milljörðum króna. Stærsta fjármögnunarlotan var í mars árið 2020 þegar 7,6 milljónir evra söfnuðust í hlutafjárútboði Mainframe.

Vísisjóðurinn, Andreessen Horowitz eða a16z, var kjölfestufjárfestir í útboðinu en hann er meðal þekktari sjóða á þessu sviði. Ásamt honum tók Riot Games þátt í útboðinu en það fyrirtæki gefur út hinn vinsæla leik League of Legends sem keppt var í á mótinu sem fór fram í Laugardalshöllinni fyrr í ár. Kaupin í Mainframe voru fyrsta fjárfesting a16z og Riot á Norðurlöndunum.

Mainframe hafði áður fengið tvær milljónir evra í fjármögnun frá íslenska fjárfestingarsjóðnum Crowberry og þremur finnskum vísisjóðum en sömu aðilar tóku einnig þátt í útboðinu í fyrra.

Nánar er fjallað um málið í tímariti Frjálsrar verslunar sem var að koma út. Hægt er að gerast áskrifandi hér eða kaupa blaðið hér .