Tónlistarveitan Spotify hefur starfsemi í fyrsta sinn á Íslandi í dag. Netveitan var stofnuð í Svíþjóð árið 2008 en aldrei fyrr hefur Íslendingum gefist kostur á að hlusta á tónlist eftir þeirri leið. Tónlistarunnendum stendur til boða yfir 20 milljónir laga þegar þeim hentar, án þess að greiða nokkuð. Sömuleiðis er hægt að greiða áskriftargjald að þjónustunni. Netverjar þurfa að ná í forrit Spotify á vef fyrirtækisins og geta það því loknu streymt tónlist í tölvum,, farsímum, spjaldtölvum og hljómflutningstækjum.

Spotify er í boði í 28 löndum; Bandaríkjunum, Bretlandi, Svíþjóð, Finnlandi, Danmörku, Frakklandi, Sviss, Þýskalandi, Austurríki, Belgíu, Hollandi, Spáni, Ástralíu, Nýja Sjálandi, Írlandi, Lúxemborg, Ítalíu, Portúgal, Singapúr, Hong Kong, Malasíu, Póllandi, Eistlandi, Lettland, Litháen, Íslandi og í Mexíkó. Meira en 24 milljónir manna eru virkir notendur Spotify og áskrifendur eru rúmlega 6 milljónir.

Frá því Spotify var komið á laggirnar í Svíþjóð árið 2008 hafa rétthafar fengið greiddan rúmlega hálfan milljarð Bandaríkjadala. Stefnt er að því að greiðslur til rétthafa á árinu 2013 verði um hálfur milljarður Bandaríkjadala. Spotify er þegar orðinn önnur stærsta tekjulind rétthafa í stafrænni tónlist í Evrópu og stærsta og vinsælasta tónlistarveita sinnar tegundar í heiminum.