David Lowery, söngvari og gítarleikari rokkhljómsveitarinnar Cracker, sakar Spotify um að hafa dreift tónlist með ólöglegum hætti og án þess að hafa leyfi til þess. Á mánudaginn lögsótti hann Spotify fyrir bandarískum alríkisdómstóli vegna þessa.

Lowery sækir mál sitt fyrir hönd sín sjálfs og allra listamanna í sambærilegri stöðu. Vinni hann málið gæti það leitt til þess að Spotify verði sektað fyrir á bilinu 750 og 150.000 dollara fyrir hvert lögbrot. Sektirnar yrðu greiddar til þeirra listamanna sem um ræðir. CNN Money greinir frá því að heildarupphæðin nemi að minnsta kosti 150 milljónum dollara, eða jafnvirði 19 milljarða króna.

Spotify segir í tilkynningu að það ætli sér að borga listamönnum og útgefendum hvert einasta sent sem þeir eiga rétta á, en að í Bandaríkjunum séu nauðsynleg gögn til að staðfesta hverjir séu rétthafar oft á tíðum ekki til staðar eða röng.