Hlutabréf í tónlistarstreymisveitunni Spotify verða skráð á kauphöll í New York í dag. Þetta er sagt marka vatnaskil hjá félaginu sem eftir tólf ára starfsemi hefur ekki skilað hagnaði.

Í frétt á vef BBC segir að skráningin sé óhefðbundin þar sem ekki verða gefin út ný hlutabréf samhliða skráningunni. Þess í stað verða hluti í eigu einstakra fjárfesta settir á markað. Fyrirtækið er metið á um 20 milljarða dollara, um 2.000 milljarða króna.

Fyrirtækið, sem hóf líf sitt sem lítið sprotafyrirtæki í Svíþjóð, hefur vaxið mjög hratt undanfarin ár og bætt við sig miklum fjölda notenda, þó án þess að skila hagnaði. Engin streymisveita stendur Spotify á sporði með sína 71 milljón greiðandi viðskiptavina. Það eru tvöfalt fleiri en Apple, sem er með næstflesta greiðandi notendur.