Tónlistarveitan Spotify hefur gefið út breytanleg skuldabréf sem nema að nafnvirði 1 milljarði dala, eða ríflega 124 milljörðum króna. Kaupendur voru fjárfestingarfyrirtækið TPG, vogunarsjóðurinn Dragoneer Investment Group auk ýmissa viðskiptavina Goldman Sachs Group.

Tæknifyrirtæki hafa í auknum mæli gefið út breytanleg skuldabréf undanfarið í kjölfar óróleika á hlutabréfamörkuðum og óvissu í hagkerfi fjölda ríkja. Eigendur breytanlegra skuldabréfa geta skipt skuldabréfinu út fyrir hlutabréf, samkvæmt skilmálum skuldabréfsins.

Geta fengið afslátt af útboðsgengi

Stjórnendur Spotify hafa þegar gefið út að það ætli að skrá félagið á markað á næstu tveimur árum en skilmálar skuldabréfsins taka mið af þeim áætlunum.

Samkvæmt skilmálum skuldabréfa Spotify munu fjárfestar fá afslátt af útboðsgengi hlutabréfa í félaginu ef það kemur til þess að Spotify verði skráð á markað, þ.e. við breytingu skuldabréfsins í hlutabréf. Ef félagið verður skráð á markað á næsta ári fá þeir 20% afslátt, en hlutfall afsláttarins mun lækka um 2,5 prósentustig á sex mánaða fresti.

Vextirnir fara stighækkandi

Vextir á skuldabréfinu eru 5% og þeir munu hækka um eitt prósentustig á sex mánaða fresti þar til félagið verður skráð á markað. Vextir munu ná hámarki í 10% ársvöxtum.

Með því að sækja fjármagn á skuldamarkaði með útgáfu breytanlegra skuldabréfa þá eykur félagið verulega við lausafé sitt án þess að lækka virði hlutabréfum félagsins, en slíkt gæti hægt á vexti félagsins.