Alþjóðaheilbrigðismálastofnuni (WHO) baðst í dag afsökunar á upplýsingum sem stofnunin lét frá sér fara um að Grikkir væru í auknu mæli farnir að grípa til þess örþrifaráðs að sprauta sjálfa sig með HIV til þess að fá meiri aðstoð frá ríkinu.

Þær upplýsingar sem komu fram í skýrslunni voru að helmingur nýrra smita væri vegna fólks sem hefði sprautað sig sjálft með veirunni. Ástæðan væri sú að HIV smitaðir þættu njóta rausnarlegs stuðnings frá hinu opinbera í Grikklandi.

HIV smitaðir fá um 700 evrur á mánuði frá hinu opinbera. Það samsvarar um 115 þúsund íslenskum krónum. Samkvæmt upplýsingum sem Sky fréttastofan greinir frá í dag hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin beðist afsökunar á villu í skýrslunni sem hafi valdið misskilningnum.