Bréf sem Napóleon Frakklandskeisari ritaði í október 1812 fór á einar 187.500 evrur á uppboði, sem haldið var í París á dögunum. Jafngildir það því að kaupandinn hafi greitt 30,7 milljónir króna fyrir bréfið. Napóleon skrifaði það á dulmáli og ritaði undir það „Nap.“, en sjaldgæft var að hann merkti bréf sín með þeim hætti.

Þegar bréfið er ritað situr franski herinn í Moskvu og hefst það á orðunum „Klukkan þrjú í fyrramálið ætla ég að sprengja Kreml í loft upp“. Það var gert og skömmu síðar hóf franski herinn sína skelfilegu heljargöngu aftur heim, en í henni féllu hundruð þúsunda hermanna.