Fasteignaverð í Tyrklandi hækkaði verulega á árinu 2006 í kjölfar mikilla hækkana á fatseignaverði árið 2005. Global Property Guide (GPG) telur þó erfitt að segja nákvæmlega til um hversu hækkanirnar hafi verið miklar þar sem yfirvöld gefi ekki út neinar opinberar tölur um fasteignaverð. Ekki er heldur hægt að styðjast við tölur greiningarfyrirtækja. Því eru tölur GPG væntanlega byggðar á fáanlegum tölum í beinum fasteignaviðskiptum.

Samkvæmt upplýsingum GPG fjárefstu útlendingar í fasteignum í Tyrklandi fyrir 2,5 milljónir Bandaríkjadollara árið 2006. Er þar um að ræða tvöföldun í fjárfestingum á einu ári og fimmföldun frá árinu 2002.

Það sem valdið hefur þessari sprengingu á markaðnum í Tyrklandi eru einkum ný lög sem sett voru árið 2005 sem heimila útlendingum, bæði einstaklingum og fyrirtækjum, að kaupa allat að 25.000 fermetra eignir af viðskiptaástæðum. Þá er hægt að fá heimild sérstakrar ráðaherranefndar fyrir aukningu á kaupum upp í allt að 300.000 fermetra, eða 30 hektara.

Þó lögin opni mikla möguleika fyrir útlendinga til að fjárfesta í fasteignum á Tyrklandi, þá eru samt ákveðnar skorður. Útlendingum er t.d. ekki heimilt að kaupa land sem t.d. er talið menningarsögulega mikilvægt. Þá eru lögin miðuð við gagnkvæm viðskipti, þannig að Tyrkjum sé líka heimilt að fjárfesta í löndum erlendu fjárfestanna.

Önnur skýring á sprengingunni á fasteignamarkaðnum er að vextir til fasteignakaupa fóru að lækka í Tyrklandi fyrir tveim árum. Þá er búist við að ný lög um veð muni ýta enn frekar undir þessi viðskipti. Að vísu hafa Tyrkir búið við mikla verðbólgu og er talið að reynt verði að sporna við henni með hækkun stýrivaxta.

Afrakstur af leiguhúsnæði er tiltölulega mikill í Tyrklandi. Þannig er leiga að gefa af sér 6% til 7% afkomu í miðborg Istanbul og afkoman er allt að 13% til 16% á vinsælum ferðamannastöðum á ströndinni.

Kostnaður við fasteignaviðskipti er talin nokkuð temmilegur í Tyrklandi miðað við það sem gengur og gerist í öðrum löndum.