Húsgagnaverslun hefur tekið mikinn kipp undanfarna mánuði. Árstíðaleiðrétt velta í húsgagnaverslun var 41% meiri í febrúar heldur en hálfu ári áður samkvæmt tölum Seðlabankans. Árstíðaleiðrétt velta húsgagnaverslunar í febrúar var tvöfalt meiri en í apríl 2010, þegar hún náði lágmarki í kreppunni. Hún er nú um 80% af því sem hún var í janúar 2008.

Gunnar Bachmann, framkvæmdastjóri GER sem á Húsgagnahöllina, segir tölurnar ríma við eigin tilfinningu fyrir þróuninni. Hann segir alla flokka húsgagna seljast betur en áður. Núverandi eigendur keyptu Húsgagnahöllina árið 2012 og segir Gunnar að síðan þá hafi vöxtur milli ára aldrei verið meiri en í janúar og febrúar.