Miklar breytingar voru gerðar á starfsumhverfi fasteignasala um mitt ár 2015 en þá voru samþykkt á Alþingi ný lög um sölu fasteigna og skipa. Lögin takmörkuðu heimildir starfsmanna fasteignasala sem ekki voru með löggildingu til að sinna tilteknum störfum sem þeir höfðu áður sinnt. Í kjölfar lagabreytingarinnar hefur orðið sprenging í fjölda þeirra sem hafa sótt nám til löggildingar fasteignasala. Að mati formanns Félags fasteignasala munu lögin auka við réttarvernd neytenda gagnvart fasteignasölum en fasteignasalar voru ekki sammála um hvort þetta muni leiða til hækkunar á söluþóknun fasteignasala.

Undanþágur fresta framkvæmd Kjartan Hallgeirsson, formaður Félags fasteignasala, segir að réttarvernd neytenda batni við breytingarnar en undanþágur sem bætt var við lögin á síðustu metrum lagasetningar hafi þó frestað fullri framkvæmd laganna. „Þær undanþágur sem gerðar voru á síðustu metrum lagasetningar hafa orsakað það að gildistaka laganna hefur ekki að öllu leyti átt sér stað. Þessar undanþágur seinkuðu framkvæmd laganna og er því ekki að öllu leyti sýnilegt hvaða áhrif þetta mun hafa,“ segir Kjartan.

Mikil neytendavernd

Kjartan segir að neytendur muni verða betur settir þegar lögin hafi að fullu tekið gildi. „Það er engin spurning, þetta er mikil neytendavernd.“

Við gildistöku laganna var starfsmönnum á fasteignasölum sem ekki voru með löggildingu sem fasteignasalar meinað að sinna tilteknum störfum sem þeir höfðu áður sinnt, með vissum undanþágum sem fjallað var um hér að ofan. Spurður hvort þetta hafi leitt til þess að söluþóknun löggiltra fasteignasala hafi hækkað í kjölfar þess að færri hendur vinna sömu verk segir hann svo ekki vera. „Ég hef ekki orðið var við það að þóknunin hafi hækkað. Það sem hefur helst áhrif á sölulaunin er framboð, eftirspurn og samkeppni. Á síðustu árum hefur löggiltum fasteignasölum fjölgað gífurlega og á næstunni munu útskrifast á annað hundrað fasteignasalar. Þetta mun leiða til þess að þeir sem vinna í faginu eru betur menntaðir en fjöldinn helst svipaður.“

Fjöldi þeirra sem eru nú með réttindi sem löggiltir fasteignasalar er tæplega 400, en þeir starfa þó ekki allir beint við fasteignasölu heldur nýta sumir réttindin við önnur störf. Undanfarin ár hafa 30-40 útskrifast úr námi til löggildingar en námið er tveggja ára nám á háskólastigi. Nemum hefur fjölgað verulega undanfarið í kjölfar gildistöku nýju laganna en í náminu nú eru tæplega 200 manns. Að sögn Kjartans skýrist fjölgunin með- al annars af því að margir sem störfuðu sem sölumenn á fasteignasölum skráðu sig til náms.

Nánar er rætt við Kjartan og afleiðingar lagabreytinganna í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu með að ýta á Tölublöð.