Þróaðasti skotvopnamarkaður heims er líklega í Bandaríkjunum og ólíkt markaðnum með bandarísk hergögn, sem hefur einkennst af stöðnun eða hægum vexti, hefur skotvopnamarkaðurinn vestanhafs vaxið mjög hratt undanfarið. Nýjustu tölur dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna um framleiddar byssur ná til ársins 2013 en þá voru tvöfalt fleiri byssur framleiddar þar í landi heldur en árið 2010.

Í greiningu ráðgjafafyrirtækisins Southwick Associates á skotvopnamarkaðnum í Bandaríkjunum kemur fram að tímabundinn samdráttur hafi orðið hjá vopnaframleiðendum árið 2014 og var útlitið fyrir yfirstandandi ár talið vera nokkuð óljóst. Framleiðendum var ráðlagt að koma með nýjar vörur á markað til að auka áhuga neytenda og að reyna að höfða til hópa utan hins hefðbundna markhóps byssueigenda.

Hvað sem því líður var skotvopnasala Ruger, stærsta byssuframleiðanda Bandaríkjanna, 27% meiri á fyrsta ársfjórðungi þessa árs en á sama tíma í fyrra og hagnaðist fyrirtækið um 36 milljónir dollara á ársfjórðungnum, jafnvirði 4,4 milljarða króna. Til samanburðar má geta þess að hagnaður Marel á fyrsta ársfjórðungi var um 1,9 milljarðar króna.

Sala annars stærsta framleiðandans vestanhafs, Smith & Wesson, var 31% meiri á síðasta fjárhagsári en árið á undan. Samkvæmt afkomuspá mun sala Smith & Wesson aukast enn á yfirstandandi fjárhagsári.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .