Búið er að selja fleiri ný hjólhýsi það sem af er ári en á öllu árinu 2014, því má segja að sprenging hefur orðið í sölu. Söluaðilar eru hins vegar hættir að flytja inn fellihýsi, sem áður voru vinsælli en bæði hjólhýsi og tjaldvagnar. Þessu greinir Vísir frá.

Selst hafa 172 ný hjólhýsi í ár, miðað við 151 í fyrra. Einungis hafa tvö fellihýsi selst á árinu miðað við 15 í fyrra og 58 árið áður. Sala tjaldvagna hefur hins vegar staðið í stað.

Sævar Davíðsson, verslunarstjóri hjá Útilegumanninum, segir í samtali við Vísi aukna sölu hjólhýsa vera merki um að efnahagsástandið sé að breytast. „Það virðist vera að fólk hafi eitthvað meira á milli handanna,“ segir hann. Hann segir hjólhýsi vera mun þægilegri ferðamáta en fellihýsi. Bandaríkjadalur hafi styrkst svo mikið að ef farið væri að flytja inn fellihýsi á ný myndu þau kosta hátt í þrjár milljónir króna, sem fari nærri verði nýs hjólhýsis. Ný hjólhýsi kosta frá þremur milljónum króna og allt að átta milljónum króna.