*

föstudagur, 19. júlí 2019
Innlent 8. ágúst 2010 13:02

Sprenging í stofnun samlagshlutafélaga

Skattlagning arðs skýrir mikla fjölgun þeirra

Ritstjórn

Tæplega þriðjungsfækkun varð á nýskráningum einkahlutafélaga á fyrri hluta ársins samanborið við sama tíma í fyrra en um leið hefur orðið algjör sprenging í stofnun nýrra samlagshlutafélaga, sem eru orðin þrefalt fleiri en allt árið í fyrra.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru alls 899 ný einkahlutafélög stofnuð á tímabilinu samanborið við 1.322 á sama tíma í fyrra, sem er 32% samdráttur. Fækkunin frá 2008 er litlu meiri, eða um 35%. Í júní nam samdrátturinn 37% á milli ára en 150 ný einkahlutafélög komu þá í heiminn. Alls voru 295 ný samlagshlutafélög stofnsett á fyrri hluta ársins, þar af 32 í júní, en alls voru 97 stofnuð allt árið í fyrra. Til samanburðar voru 96 samlagshlutafélög stofnuð í janúar sl.

Skattahagræði fyrirsmærri aðila

Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, telur að þessar sviptingar sem hafa orðið á rekstrarformi fyrirtækja séu afleiðingar af þeim breytingum sem voru gerðar á skattalögum í lok síðasta árs varðandi skattlagningu arðs í einkahlutafélögum. Nú er orðið hagstæðara fyrir smærri aðila að stofna samlagshlutafélög utan um rekstur. „Það er meira öryggi fólgið í því að vera með samlagshlutafélög eða sameignarfélög heldur en einkahlutafélög.“ Þar bendir hann á að arður sem fer umfram fimmtung af skattalegu bókfærðu eigin fé einkahlutafélags skuli skattleggjast að hálfu sem tekjuskattur einstaklinga í stað þess að vera skattlagður sem 18% fjármagnstekjuskattur. Þetta gildi ekki um samlagshlutafélög.

Hannes veltir því aukinheldur fyrir sér hvort síðustu skattabreytingar letji smærri aðila til að stunda eigin atvinnurekstur. „Ég velti því fyrir mér hvort þessar hækkanir á prósentum valdi því að munurinn á því að reka fyrirtæki á eigin kennitölu miðað við einkahlutafélag eða samlagshlutafélag sé minni en áður og hvort erfiðara sé að vera sjálfstætt starfandi en áður og hlutfallslega auðveldara að vera launamaður.“

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu