Byggðastofnun lauk nýlega við 3,2 milljarða króna lántöku í evrum og jenum hjá erlendum banka fyrir milligöngu Askar Capital. Lánskjörin eru 140 punktar yfir sex-mánaða Liborvexti og lánstíminn til 15 ára.

Í gær var álag á skuldatryggingar ríkisins í kringum 300 punkta og eru kjörin því umtalsvert betri en markaðurinn með skuldatryggingar gefur til kynna.

Aðalsteinn Þorsteinsson, forstjóri stofnunarinnar, segir að vel hafi gengið að sækja lánið og kjörin séu vel viðunandi.

„Þetta er nokkuð á skjön við umræðuna eins og hún hefur verið að undanförnu og kom okkur dálítið á óvart,” segir Aðalsteinn.

Íhaldssemi í vaxtaákvörðunum

Útlán Byggðastofnunar eru aðallega í verðtryggðum krónum en Aðalsteinn segir eftirspurn eftir erlendum lánum hafa aukist verulega undanfarin misseri.

„Síðastliðna mánuði hefur orðið algjör sprenging hvað erlendu lánin varðar. Þótt uppistaðan í útlánum okkar sé í krónum höfum við líka lánað í evrum, jenum, svissneskum frönkum og dollurum en undanfarið hafa menn sérstaklega sóst eftir lánum í jenum. Þá hefur verið töluvert um það að menn vilji skuldbreyta verðtryggðu lánunum yfir í erlend lán en við höfum orðið við þeim beiðnum,” segir Aðalsteinn.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .