*

miðvikudagur, 29. janúar 2020
Innlent 10. september 2016 13:21

Sprenging í veitingarekstri

Gríðarleg sprenging hefur átt sér stað í íslenskum veitingahúsarekstri. Veitingastaðir spretta upp, gjaldþrotum fækkar og kortavelta á veitingahúsum margfaldast.

Ásdís Auðunsdóttir
Erlend kortavelta á veitingahúsum hefur margfaldast.
Haraldur Guðjónsson

Uppsveifla undanfarinna missera í íslensku viðskiptalífi hefur haft gríðarleg áhrif á íslenskan veitingahúsarekstur sem og aðra þætti atvinnulífsins. Tölulegar upplýsingarsýna mikla aukningu í opnun nýrra veitingastaða og mikla aukna kortaveltu erlendra aðila í geiranum. Rekstrartölur fjölmargra veitingastaða sýna töluverða hagnaðaraukningu milli ára og gjaldþrotum í greininni hefur fækkað.

162% aukning á fjórum árum

Veitingahúsarekstur hefur gjarnan þótt áhættusamur og ófyrirsjáanlegur og sem dæmi má nefna að slíkur rekstur hefur ratað inn á lista Forbes yfir 10 áhættusömustu viðskiptahugmyndirnar. Af tölum Hagstofu Íslands er þrátt fyrir það ljóst að margir láta slíka svartsýni sem vind um eyru þjóta og sjaldan hefur verið jafn mikið um nýskráningar félaga í greininni og nú.

Á árunum 2007 til 2015 fjölgaði nýskráningu íslenskra veitingastaða þannig um rúm 29% eða úr 641 félögum í 828 árið 2015. Það vekur sérstaka athygli að skráning hefur aukist jafnt og þétt frá árinu 2007, jafnt á samdráttar- og uppgangstímum. Það er ljóst að aukin umsvið ferðaþjónustunnar hafa haft umtalsverð áhrif á bætt rekstrarumhverfi íslenskra veitingastaða, jafnt innan höfuðborgarinnar sem utan.

Upplýsingar Rannsóknarsetur verslunarinnar sýna hversu gríðarleg aukning hefur orðið í mánaðarlegri kortaveltu erlendra ferðamanna á veitingahúsum landsins. Þannig má sem dæmi nefna að ef litið er til mánaðarlegrar kortaveltu í stærsta ferðamannamánuði ársins, júlí, sést hvernig veltan hefur aukist úr 1,3 milljörðum árið 2012 í 3,4 milljarða í ár. En það er tæp 162% aukning á fjórum árum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi undir Tölublöð.

Stikkorð: Veitingahús