Ökutækjaframleiðendurnir Toyota og John Deere hafa ákveðið að hætta tímabundið framleiðslu í verksmiðjum sínum nálægt Tianjin, þar sem risasprenging varð meira en 100 manns að bana í síðustu viku.

Talið er að 8.000 bílar hafi eyðilagst í sprengingunni að verðmæti 625 milljóna Bandaríkjadala, um 80 milljarða króna.

Verksmiðja Toyota mun ekki hefja starfsemi á ný fyrr en undir lok miðvikudags á meðan John Deere lokar sinni verksmiðju ótímabundið. Þá hefur Renault einnig greint frá því að fyrirtækið muni mögulega ekki ná að afgreiða allar pantanir í Kína í ágúst og september, en 1.500 bifreiðar frá framleiðandanum fuðruðu upp í sprengingunni. Þá greindi Volkswagen frá því að 2.700 bílar frá sér hefðu skemmst.

Fólk sem býr nálægt svæðinu sem sprengingin átti sér stað á hefur verið flutt í burtu, en talið er að húsnæðið sem sprakk hafi geymt hundruðir tonna af baneitruðum efnum. Meira en 50 starfsmenn Toyota slösuðust, en a.m.k. 114 manns létu lífið í sprengingunum og yfir 700 þurftu að leita aðhlynningar á sjúkrahúsi.