Bandaríska fyrirtækið Sprint hefur nú fest kaup á ríflega þriðjungs hlut í tónlistarveitunni Tidal. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækjunum.

Tidal hefur hingað til verið stjórnað af rapparanum og milljónamæringnum Jay Z, en fyrirtækið var stofnað til þess að veita Spotify og Apple Music viðnám. Reksturinn hefur þó gengið brösuglega.

Ekki hefur komið fram hversu mikið Sprint greiddi fyrir hlut sinn í félaginu. Aftur á móti keypti Jay Z Tidal fyrir ríflega 56 milljónir dala fyrir tveimur árum. Árið 2015 tapaði Aspiro, móðurfélag Tidal, aftur á móti 28 milljónum dala.

Fjárfestingin mun því að öllum líkindum hjálpa fyrirtækinu að halda sér á floti. Líklegt þykir þó að reynt verði að selja það síðar til stærri samkeppnisaðila.