*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Innlent 10. nóvember 2004 17:02

SPRON býður 100% íbúðalán

með vali um tvær mismunandi leiðir

Ritstjórn

SPRON býður nú allt að 100% lán til íbúðarkaupa eftir tveimur ólíkum leiðum. Með því vill SPRON koma til móts við mismunandi þarfir viðskiptavina sinna eins og segir í tilkynningu félagsins. Valið stendur á milli þess að taka 100% íbúðalán til allt að 40 ára á 1. veðrétti sem gæti hentað þeim sem eingöngu eru að horfa á lægri mánaðarlega greiðslubyrði.

Hin leiðin er sú að taka 100% íbúðalán sem skipt er í tvö lán, 80% íbúðalán til allt að 40 ára á 1. veðrétti og 20% lán til allt að 10 ára á 2. veðrétti. Með þessu móti verður eignamyndunin hraðari og hlutfall vaxtakostnaðar lægra.

100% íbúðalán SPRON eru veðlán allt að 25 millj. kr. og með lánstíma til allt að 40 ára. Vextir eru 4,2% að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, sama hvor leiðin er valin. Lánavernd er ekki skilyrði en mælt er með því að viðskiptavinir skoði þann hagkvæma lánaverndarvalkost sem SPRON býður upp á í samvinnu við Alþjóða líftryggingarfélagið.

SPRON leggur ríka áherslu á að fólk leiti sér ráðgjafar þjónustufulltrúa og kynni sér vel þær leiðir sem í boði eru áður en ákvörðun er tekin.