Í tengslum við heimsþing Hotel Express International, sem haldið er á Íslandi nú um helgina var gengið frá samningi við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis sem felur í sér að viðskiptavinum SPRON stendur til boða alþjóðlegt afsláttarkort Hotel Express International. Hotel Express kortið tryggir 50% afslátt af verði gistingar á liðlega 4000 hótelum víða um heim auk afsláttar af flugfarseðlum og bílaleigubílum.

?Samningurinn við Hótel Express International er liður í þeirri stefnu SPRON að tryggja að viðskiptavinir sparisjóðsins njóti ávallt bestu kjara," segir Guðmundur Hauksson sparisjóðsstjóri SPRON í tilkynningu frá félaginu. ?Á tímum aukinna ferðalaga teljum við það umtalsvert hagsmunamál fyrir fjölmarga viðskiptavini okkar að ná niður hótel- og ferðakostnaði og væntum þess að þeir kunni vel að meta þá kjarabót sem nú stendur til boða."

Hotel Express International er afsláttarklúbbur sem var stofnaður í Bandaríkjunum árið 1987. Sú sérstaða klúbbsins að bjóða meðlimum ávallt að lágmarki 50% afslátt frá listaverði hótelgistingar, hefur aflað honum mikilla vinsælda og í dag eru liðlega 3,5 milljónir manna að nýta sér afsláttarkort klúbbsins í 135 löndum. Úrval hótela sem eru í samstarfi við klúbbinn er fjölbreytt og er hægt að velja úr hótelum sem hafa allt frá tveimur og upp í fimm gæðastjörnur. Þar á meðal eru hótelkeðjur eins og Sheraton, Golden Tulip, Renaissance, Hilton, Radisson og fleiri.

Hér á landi eru í dag 25 hótel um allt land í samstarfi við Hotel Express International og bjóða þau eins og önnur samstarfshótel fastan 50% afslátt frá gistingu hverju sinni gegn því að afsláttarkorti klúbbsins sé framvísað.

Samstarfshótel klúbbsins eru öll tilgreind í alþjóðlegri Hotel Express International handbók sem er uppfærð tvisvar til þrisvar sinnum á ári en handbókin er einnig aðgengileg á vefsíðu klúbbsins www.hot-ex.is. Handhafar kortsins geta bókað sig beint á viðkomandi hótel eða notið endurgjaldslausrar aðstoðar bókunar- og þjónustumiðstöðvar Hotel Express á Íslandi. Á ferðalögum erlendis er hægt að fá aðstoð við bókanir í bókunarmiðstöðvum klúbbsins í viðkomandi landi segir í tilkynningu SPRON.