Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, Spron, hefur ákveðið að efla fyrirtækjaráðgjöf sparisjóðsins og hefur undanfarið verið unnið að því að bæta við starfsmönnum að því er kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag. Það er Jón Hallur Pétursson sem mun veita sviðinu forstöðu en hann er framkvæmdastjóri fyrir viðskiptastofu Spron og Spron-Verðbréf.

Deildin sem hér um ræðir mun heita Fyrirtækjaráðgjöf og fjármögnun en hún verður rekin sem partur af viðskiptastofu Spron. Jón Hallur benti á að það hefði verið stefna Spron að þjónusta lítil og meðalstór fyrirtæki en auk þess er mikið af félagasamtökum meðal þeirra viðskiptavina.

"Við sjáum fyrir okkur að geta veitt fyrirtækjum sem eru í viðskiptum hjá okkur aukna þjónustu með því að aðstoða þau við að stækka og eflast. Partur af því er að reka deild sem sérhæfir sig í þessum verkefnum," sagði Jón Hallur. Þetta nýja svið mun aðstoða menn við að kaupa og selja fyrirtæki og aðstoða við fjármögnun. "Við teljum að það sé orðin töluverður markaður fyrir að hjálpa mönnum að stuðla að umbreytingum í rekstri, hvort sem það er til að hagræða eða sækja fram."

Til þess að sinna þessu hafa verið ráðnir tveir nýir starfsmenn, þeir Örn Viðar Skúlason og Ólafur Örn Ingólfsson. Örn var síðast framkvæmdastjóri SÍF Ísland en Ólafur starfaði hjá KB banka í Svíþjóð. "Þetta á að styðja við núverandi viðskiptavni okkar og hjálpa nýjum ef þeir vilja stækka sín fyrirtæki eða selja.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.