SPRON hefur lokið verðbréfun íbúðalánasafns síns (e. securization) fyrir um 21 milljarð króna. SPRON er þar með fyrsta fjármálastofnunin hér á landi til þess, en skuldabréfin eru gefin út í evrum.

78,5% skuldabréfanna fá Aaa lánshæfismat frá Moody´s. Þau hafa verið skráð í tveimur kauphöllum, Kauphöll Íslands og NYSE Euronext Amsterdam. Þau eru jafnframt gjaldgeng í endurhverfum viðskiptum hjá Seðlabanka Íslands og Seðlabanka Evrópu.

Í tilkynningu frá SPRON segist Guðmundur Hauksson, forstjóri SPRON, mjög ánægður með að SPRON hafi fengið hæsta mögulega mat á bréfin frá Moody´s, sérstaklega í ljósi þess hve aðstæður eru erfiðar um þessar mundir. Matið opni nýjar leiðir fyrir SPRON í tengslum við fjármögnun.

SPRON og Fortis banki voru umsjónaraðilar skuldabréfaútgáfunnar.