Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, SPRON hefur eignast meirihluta í fyrirtækinu Midt Factoring. Kaupverð er ekki gefið upp en nýtt nafn félagsins verður SPRON Factoring hf.

Í tilkynningu frá félagsinu kemur fram að félagið verður rekið áfram á sömu forsendum, og stjórnunarteymi félagsins mun vinna með nýjum meirihlutaeiganda að eflingu félagsins og vexti. Agnar Kofoed- Hansen er framkvæmdastjóri SPRON Factoring hf. Lárus Sigurðsson útibússtjóri SPRON í Ármúla er stjórnarformaður SPRON Factoring hf.

SPRON Factoring hf gerir fyrirtækjum kleift að vista hluta af starfsemi sinni sem snýr að lánsviðskiptum hjá SPRON Factoring. Þannig felur þjónusta SPRON Factoring meðal annars í sér, fjármögnun viðskiptakrafna, mat á lánshæfi skuldara, greiðslutryggingar, gengistryggingar, afstemmingar á viðskiptamannabókhaldi, innheimtu og eftirliti með skuldurum og víðtæka ráðgjöf á sviði lánsviðskipta.

Félagið var stofnað árið 2000 og naut þekkingar og styrks frá danska móðurfyrirtækinu. Midt Factoring A/S í Danmörku verður áfram hluthafi í félaginu og á um 20 prósent í SPRON Factoring hf.

Í fréttatilkynningu kemur fram að félagið hefur verið að skila hagnaði og stöðugur vöxtur hefur verið frá stofnun. Félagið var á síðasta ári að annast kröfur og fjármögnun krafna upp á tæpa níu milljarða króna. Búist er við mikilli aukningu á sviði kröfufjármögnunar og tengdri þjónustu á Íslandi í náinni framtíð. Factoring eða kröfuþjónusta henta ekki bara stórum fyrirtækjum í útflutningi heldur hafa meðalstór og smærri fyrirtæki náð töluverðri hagræðingu í rekstri sínum með því að skipta við félagið.

Sjö starfsmenn vinna hjá SPRON Factoring.