Í yfirlýsingu sem stjórn Spron hefur sent frá sér kemur fram hörð gagnrýni á Seðlabanka Íslands. Stjórnin segir að viðræður við erlenda lánveitendur hafi gengið vel og legið fyrir drög að samningi þegar Seðlabanki Íslands tilkynnti Fjármálaeftirlitinu að þeir myndu ekki veita Spron frekari fyrirgreiðslu. Það hafi orðið til þess að bankinn hafi orðið að fara undir skilanefnd.

Þetta var gert þrátt fyrir að Spron hafi sýnt fram á að sparisjóðurinn gæti staðið við allar skuldbindingar sínar til skamms tíma enda hefur lausafjárstaða Spron ekki versnað á þessu ári. "Fjármálafyrirtæki með jafn víðtæka þjónustu og Spron getur hins vegar ekki starfað eðlilega nema eiga greið viðskipti við Seðlabanka, sérstaklega í ljósi þess að ekki er um virkan millibankamarkað að ræða. Með þessari ákvörðun Seðlabankans gafst hvorki tækifæri til að ljúka samningum við lánveitendur og byggja þannig upp eigið fé fyrirtækisins né að ljúka við sölu skuldabréfa til Íbúðalánsjóðs og leysa þannig úr lausafjárstöðu sparisjóðsins," segir í yfirlýsingu Spron.