Stjórn SPRON hefur sent frá sér tilkynningu í tilefni af í Fréttablaðinu í gær. Tilkynningin er svohljóðandi:

„Fyrir breytingu SPRON í hlutafélag starfaði tilboðsmarkaður með stofnfjárbréf á grundvelli reglna sem stjórn félagsins setti að fenginni umsögn Fjármálaeftirlitsins árið 2004. Í drögum að þessum reglum var ákvæði um birtingu upplýsinga um viðskipti innherja með stofnfjárbréf. Í umsögn frá Fjármálaeftirlitinu kom fram sú afstaða að birting slíkra upplýsinga væri óheimil. Í kjölfarið voru ný drög að reglum send til Fjármálaeftirlitsins þar sem ákvæði um birtingu upplýsinga um innherjaviðskipti var fellt út og reglurnar gefnar út þannig breyttar.

Því er ljóst að:

• Stjórn SPRON gat ekki ályktað annað en að birting upplýsinga um viðskipti innherja væri óheimil

• Stjórn SPRON hefur starfað eftir þessum reglum í góðri trú frá 2004 án athugasemda

• Vilji stjórnar SPRON stóð alltaf til þess að birta upplýsingar um innherjaviðskipti með formlegum hætti

Kjarni máls er að sú umræða sem spunnist hefur um viðskipti stjórnarmanna fyrir breytingu SPRON í hlutafélag á rætur að rekja til þess að verð hlutabréfa í SPRON hefur lækkað frá því að félagið var skráð í kauphöll.

Hefur verið látið að því liggja að stjórn SPRON hafi búið yfir innherjaupplýsingum sem skýri þá lækkun og þar með að stjórnarmenn hafi starfað af óheilindum. Stjórn SPRON hefur ítrekað bent á að engar innherjaupplýsingar lágu fyrir þegar umrædd viðskipti áttu sér stað og ítrekar það aftur nú.“