Tap Spron á þriðja ársfjórðungi nemur 3,1 milljarði króna. Gengistap upp á 3,5 milljarða króna vegna neikvæðrar þróunar á hlutabréfamarkaði setur þar strik í reikninginn.

Afkoman lýsir rekstrinum í júlí, ágúst og september og endurspeglar því stöðu sparisjóðsins fyrir hrun bankanna. Í tilkynningu frá félaginu segir að afleiðingar af falli bankanna séu ekki enn að fullu komnar fram hjá sparisjóðnum og erfitt sé að meta verðmæti eigna af fullri nákvæmni.

Eftirfarandi er haft eftir Guðmundi Haukssyni, forstjóra: „Við höfum hins vegar gripið til aðgerða til að styrkja stöðu SPRON með langtímahagsmuni bankans að leiðarljósi og að því ferli koma allir helstu hagsmunaaðilar. Niðurstöður þeirra aðgerða er að vænta innan skamms.“

Eigið fé Spron í lok september nam 10,4 milljörðum króna og eiginfjárhlutfallið var 10,1%, en þess bera geta að eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja má ekki fara niður fyrir 8%.

Tap hefur verið á rekstri Spron á síðustu 5 fjórðungum og heildartap ársins nemur samtals 16,5 milljörðum króna.

Í tilkynningu frá Spron segir einnig að alþjóðleg fjármálakreppa og fall viðskiptabankanna þriggja hafi haft mikil áhrif á eiginfjárstöðu félagsins. Þá hafi Fjármálaeftirlitinu verið gert grein fyrir stöðunni og sé unnið að því að styrkja þá stöðu í samvinnu við helstu hagsmunaaðila.