SPRON tapaði sex milljörðum króna á fjórða ársfjórðungi, en til samanburðar tapaði félagið 760 milljónum króna á sama tímabili ársins áður. Munar þar mestu um hreinar tekjur af fjáreignum og fjárskuldum og hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga, en þessir liðir voru neikvæðir um 11 milljarða króna á fjórðungnum.

Hagnaður til hluthafa á öllu árinu nam 3,3 milljörðum króna, miðað við níu milljarða á árinu 2006.

Í tilkynningu um uppgjörið er haft eftir Guðmundi Haukssyni, forstjóra SPRON:

„Afkoma SPRON fyrir árið eru 3,3 milljarðar króna sem er vel viðunandi í ljósi mikilla lækkana á hlutabréfamörkuðum. Grunnrekstur SPRON hefur styrkst á árinu og fara vaxta- og þóknanatekjur hækkandi. Innlán hafa aukist um 51% og fjármagna bæði SPRON sparisjóður og Netbankinn sig alfarið með innlánum en fyrir samstæðuna í heild nema innlán 53% af heildarútlánum til viðskiptavina. Lausafjárstaða félagsins er sterk og aðeins eitt langtímalán er á gjalddaga árið 2008 fyrir um 20 milljónir evra sem hefur þegar verið fjármagnað. Eiginfjárhlutfallið er 13,4% og hefur lækkun á verðmæti hlutar okkar í Exista óveruleg áhrif á eiginfjárgrunn samstæðunnar. Á árinu 2008 er ætlunin að vinna að frekari samþættingu í kjölfar þess vaxtar sem einkennt hefur reksturinn undanfarin ár. Um leið er ætlunin að draga úr kostnaði og hagræða í rekstri. Við erum því mjög vel í stakk búin til þess að mæta þeim erfiðu aðstæðum sem nú eru uppi á fjármálamörkuðum og nýta þau tækifæri sem munu skapast.“