Tap SPRON á öðrum ársfjórðungi nam 5 milljörðum króna eftir skatta. Tap á fyrri helmingi ársins nemur 13,5 milljörðum króna eftir skatta.

Í tilkynningu frá félaginu segir Guðmundur Hauksson horfur SPRON vel viðunandi þrátt fyrir erfiðar markaðsaðstæður. Undanfarið hafi SPRON hagrætt í rekstri og árangur þeirra aðgerða muni halda áfram að koma fram eftir því sem líður á árið. Grunnrekstur SPRON sé traustur og vaxtatekjur hafi aukist um 56% á fyrri helmingi ársins borið saman við fyrri helming ársins 2007.

Rekstrartekjur bankans á fjórðungnum voru neikvæðar um 3,7 milljarða króna. Vaxtatekjur numu 888 milljónum króna og þjónustutekjur 246 milljónum.

Heildarútlán til viðskiptamanna SPRON námu 179,8 milljörðum króna og eru innlán bankans 49% af þeirri upphæð. Innlánaaukning bankans er 4% frá árslokum 2007.

Eigið fé SPRON nam í lok 2. fjórðungs 13,5 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfall er 12,1%.