Tap Spron [ SPRON ] á fyrsta ársfjórðung nam 8,4 milljörðum króna samanborið við 4,7 milljarða króna hagnað á sama tíma í fyrra. Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að tap félagsins fyrir skatta nam 10,4 milljörðum króna en allar skráðar eignir eru færðar á markaðsvirði.

„Neikvæð þróun á hlutabréfamarkaði á fyrsta ársfjórðungi olli gengistapi í Exista sem nam 8,2 milljörðum króna og í veltubók sem nam 2,0 milljarði króna,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að Spron hafi selt allar eignir úr veltubók sinni til að minnka markaðsáhættu.

Hreinar vaxtatekjur félagsins voru 830 milljónir króna og jukust um 78% frá sama tímabili í fyrra. Þá námu hreinar þjónustutekjur 335 milljónum króna og jukust einnig um 7% á milli ára.

Hreinar rekstrartekjur Spron voru neikvæðar um 8,8 milljarða króna.

Afkoma reiknaðs grunnrekstrar var 876 milljónir króna með 12,6% arðsemi eigin fjár eftir skatta

Innlánaaukning var 10% frá árslokum 2007 og voru innlán 53,2% af heildarútlánum til viðskiptamanna. Heildarútlán til viðskiptamanna námu 176,8 milljörðum króna.

Heildareignir Spron er samkvæmt tilkynningunni 254,7 milljarðar króna og hafa aukist um 14% milli ára og nam eigið fé 17,8 milljörðum króna.

Arðgreiðsla á tímabilinu nam 1,6 milljarði króna vegna ársins 2007. Víkjandi lán að upphæð 5 milljarða króna tekið á fjórðungnum.

Eiginfjárhlutfall (CAD) Spron var 14,1% á tímabilinu.

Þá kemur fram í tilkynningunni að endurfjármögnun Spron fyrir árið 2008 er lokið og tryggt hafi verið aðgengi að lausafé fram til ársins 2010

Markaðsvirði Spron er um 24,9 milljarðar samkvæmt Markaðsvakt Mentis.