SPRON tapaði 850 milljónum króna eftir skatta á þriðja ársfjórðungi, en á sama tímabili í fyrra hagnaðist bankinn um 7,1 milljarð. Fram kom í máli Guðmundar Haukssonar, forstjóra SPRON, á afkomufundi í morgun, að þessi niðurstaða væri í samræmi við aðstæður á markaði. Rekstur SPRON væri í eðli sínu sveiflukenndur, vegna mikilla hlutabréfaeigna. Grunnreksturinn væri þó í góðu lagi.

Mestu munaði um minni tekjur af verðbréfum og hlutdeild í tapi hlutdeildarfélaga. Hlutdeild SPRON í afkomu hlutdeildarfélaga var neikvæð um 1.100 milljónir króna á tímabilinu og hreinar tekjur af fjáreignum og fjárskuldum voru aðeins 205 milljónir króna, borið saman við 7,7 milljarða á þriðja fjórðungi 2006. Þá var hlutdeild í afkomu hlutdeildarfyrirtækja jákvæð um 1.100 milljónir.

Hagnaður félagsins fyrstu níu mánuði ársins var 9,3 milljarðar króna og á þriðja fjórðungi var hagnaður af grunnrekstri SPRON 3,7 milljarðar. Grunnrekstur SPRON felur í sér að rekstrarliðir vegna fjárfestinga eru bakfærðir, þar með talinn gengismunur, en á móti eru vaxtatekjur leiðréttar sem nemur kostnaði samstæðunnar af því að liggja með hlutabréfa- og skuldabréfastöður.