Hátt í hundrað manns fögnuðu opnun Torgsins, nýs viðskiptaseturs Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands í Austurstræti í gær.

„Segja má að Torgið sé fyrsti áþreifanlegi ávöxtur þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til í kjölfar erfiðleika í efnahagslífinu en Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur unnið hörðum höndum að því að bregðast við breyttum aðstæðum,“ segir í tilkynningu frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Þar kemur fram að 13 sprotafyrirtæki hafa hreiðrað um sig á Torginu og eru viðskiptahugmyndirnar fjölbreyttar, allt frá hugbúnaðarþróun fyrir gsm-síma til vöruhönnunar.

Torgið er samstarfsverkefni Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja og Landsbankans, sem leggur Torginu til húsnæði í Austurstræti 16.

Á Torginu fá einstaklingar skrifstofuaðstöðu og stuðning sérfræðinga Nýsköpunarmiðstöðvar til að vinna að viðskiptahugmyndum.