Hugbúnaður Arkio býður upp á sýndarveruleika þar sem notendur geta hannað byggingar í samvinnu við aðra. Framkvæmdastjóri og stofnandi félagsins, Hilmar Gunnarsson, hefur ekki fengið neina fjárfesta að borðinu, heldur hefur hann fjármagnað alla þróunina sjálfur, sem hefur tekið fjögur ár og er í höndum átta manna teymis.

Hann segir þó fara að verða tímabært að fá fjárfesta að borðinu, og viðræður eru þegar hafnar. Vonir hans standa til þess að reksturinn verði fjárhagslega sjálfbær eftir nokkur ár.

Starfsfólk félagsins hefur verið ötult við að koma Arkio á framfæri erlendis síðustu misseri; talað á ráðstefnum og tekið þátt í viðburðum svo eitthvað sé nefnt. Nokkuð er síðan forritið varð aðgengilegt í prufuútgáfu, og sú útgáfa náði þúsundum notenda, en nú í byrjun júní var það svo formlega gefið út.

Arkio verður aðgengilegt ókeypis í heild sinni út ágústmánuð, en eftir það verður aðeins grunnútgáfan ókeypis. Notkun þess er ekki bundin við sýndarveruleikagleraugu, heldur má einnig nota tölvur, síma og spjaldtölvur, og notendur sem vinna saman þurfa ekki allir að vera á samskonar tæki.

Þegar fram líða stundir sér Hilmar fyrir sér að bæta við eiginleikum á borð við rauntímaútreikninga burðarþols, vindsþáttar og hljóðs, sem ekki hafa verið hluti af frumvinnslu hönnunar áður.

Nánar er fjallað um málið í tímariti Frjálsrar verslunar sem var að koma út. Hægt er að gerast áskrifandi hér eða kaupa blaðið hér .