Hugbúnaðarfyrirtækið GRID var stofnað árið 2018 eftir að stofnandinn, Hjálmar Gíslason, hafði selt síðasta fyrirtæki sitt, DataMarket, til bandaríska fyrirtækisins Qlik fyrir 1,6 milljarða króna. Hugmyndin sem GRID var stofnað í kringum er sú að betrumbæta miðlun upplýsinga úr töflureiknum á borð við Excel.

Félagið hefur verið vel fjármagnað frá upphafi, og hefur alls fengið 16,5 milljóna dala fjárfestingu, rétt um 2 milljarða króna á gengi dagsins í dag. Strax við stofnun fékk það milljón dala englafjárfestingu, svo 3,5 milljónir dala árið 2019. Loks fékk félagið 12 milljónir dala síðasta haust frá fjárfestahóp sem leiddur var af sprotasjóðnum New Enterprise Associates, sem sagt var hugsað til að flýta fyrir þróun vörunnar og því að henni yrði komið á markað, sem varð raunin rétt um hálfu ári síðar.

Fyrr á þessu ári var svo sagt frá því að miðað við bókfært virði 1,7% hlutar Brunns vaxtasjóðar í félaginu sé heildarvirði þess nú metið um 5 milljarðar króna.

GRID byggir á þeirri hugmynd að nýta þá þekkingu sem fólk hefur þegar á töflureiknum, og útbreiðslu töflureiknanna sjálfra, og byggja ofan á hana. Þannig geti fólk sem þegar kann að vinna gögn nú sett þau fram sjálft, innan þess umhverfis, í stað þess að önnur deild eða starfsmaður innan fyrirtækisins sjái um þann hluta. Hver sem kann á Excel geti því smíðað viðmót ofan á það og þannig miðlað upplýsingum þaðan á skýran, skilvirkan og hreinlegan hátt.

Nánar er fjallað um málið í tímariti Frjálsrar verslunar, sem var að koma út og færst í verslun Pennans Eymundsson. Hægt er að gerast áskrifandi hér eða kaupa blaðið hér .