Avo er nýsköpunarfyrirtæki sem Stefanía Bjarney Ólafsdóttir og Sölvi Logason settu á fót í byrjun árs 2018, en áður stýrðu þau gagnagreind hjá Plain Vanilla Games. Fyrirtækið þróar gagnastjórnunar hugbúnað fyrir stafrænar vörur og leiðir byltingu í skilningi fyrirtækja á notendaupplifun.

Stefanía, sem er framkvæmdastjóri félagsins, lýsti Avo á eftirfarandi hátt í viðtali við Viðskiptablaðið síðla árs 2019: „Avo tryggir að gögnin sem vöruteymi safna til að skilja notendur sínar séu áreiðanleg. Stafræn vöruþróun krefst þess í dag að teymi hreyfist á leifturhraða. En ekki í hvaða átt sem er, heldur í rétta átt.

Þau vöruteymi sigra sem nýta sér kraft gagna til að búa til bestu upplifunina fyrir notendur." Fyrirtækið hefur vaxið nokkuð hratt og til marks um það tífölduðust tekjur, starfsmannateymið þrefaldaðist og notkun núverandi viðskiptavina á hugbúnaði fyrirtækisins jókst um meira en 200% á síðastliðnu ári. Vöxtur Avo hefur fyrst og fremst átt sér stað erlendis.

Síðastliðið ár bætti fyrirtækið við sig fjölmörgum nýjum viðskiptavinum úr fjölbreyttum geirum. Má þar meðal annars nefna gítarfyrirtækið Fender, stærsta bíla-deilifyrirtæki heims Turo, fundaskipulagstólið Doodle og hugbúnaðarfyrirtækið Patreon. Fyrirtækið tilkynnti um 419 milljóna króna fjármögnun frá Kísildalnum síðastliðið haust.

Var fjárfestahópurinn leiddur af bandaríska vísisjóðnum GGV Capital, með þátttöku Heavybit og Y Combinator. Sérhæfa allir fyrrnefndir sjóðir, sem oft eru taldir meðal þungavigtarsjóða í Kísildalnum, í að fjárfesta í ört vaxandi nýsköpunarfyrirtækjum. Stefanía kveðst mjög spennt fyrir framtíð Avo. „Við hjálpum öðrum hugbúnaðarfyrirtækjum að tryggja að gögnin þeirra um notendaupplifun séu áreiðanleg. Sá bransi hefur verið að vaxa mjög hratt undanfarna 18 mánuði."

Hún segir fjölda fjárfesta, m.a. stóra erlenda sjóði, hafa sýnt fyrirtækinu mikinn áhuga og lýst yfir áhuga á að taka þátt í næstu fjármögnunarumferð.

Nánar er fjallað um Avo og fleiri sprota á uppleið í tímariti Frjálsrar verslunar sem var að koma út. Hægt er að gerast áskrifandi með því að senda póst [email protected]