*

laugardagur, 25. september 2021
Frjáls verslun 31. júlí 2021 12:05

Sprotar: Hyggjast um­bylta með­ferð lungna­þembu

Lyfjaþróunarfyrirtækið EpiEndo framleiðir lyf sem er hugsað sem er hugsað sem langtímameðferð við lungnaþembu.

Ritstjórn
Finnur Friðrik Einarsson Rekstrarstjóri EpiEndo.
Haraldur Guðjónsson

Lyfjaþróunarfyrirtækið EpiEndo hóf á dögunum prófanir á mannfólki eftir að hafa unnið að þróun frumlyfs síns frá árinu 2014. Lyfið er hugsað sem langtímameðferð við lungnaþembu, þriðja mannskæðasta sjúkdómi heims, sem ólíkt núverandi meðferðum á að ráðast að rót vandans og verða þannig mun áhrifaríkari.

Félagið fékk í apríl á þessu ári 2,7 milljóna evra fjármögnun í formi umbreytanlegs láns, ígildi um 400 milljóna íslenskra króna. Áður hafði það fengið bæði hlutafé og styrki, og hefur samanlagt safnað 11,4 milljónum evra frá stofnun, eða tæpum 1,7 milljörðum króna á gengi dagsins í dag.

Hugmyndin kviknaði hjá Friðrik Rúnari Garðarssyni lækni þegar hann vann hjá barnaspítalanum og sá hve jákvæð áhrif lyfið azithromycin hafði á öndunarvegssjúkdóma. Virkni lyfja í þeim flokki er skilgreind sem bólgueyðandi, en Friðrik taldi áhrifin vera á sjálfa slímhúð lungnanna.

Azithromycin er hins vegar sýklalyf og því miklar takmarkanir á notkun þess til að sporna við tilurð sýklalyfjaónæmra baktería. Friðrik sá þó mikla möguleika við meðferð öndunarvegssjúkdóma í því að vinna beint á slímhúðinni, og tókst með hjálp sænska efnasmíðafræðingsins Fredrik Lehmann að fjarlægja sýkladrepandi áhrif lyfsins. Félagið hefur nú fengið sterkt alþjóðlegt einkaleyfi fyrir heilum hópi lyfja sem byggja á þessari hugmynd, og klínískar rannsóknir á fólki eru þegar hafnar, en það markar fyrsta skiptið sem íslenskt fyrirtæki ræðst í slíkar rannsóknir vegna þróunar frumlyfs.

Lyfið er gefið fáum sjálfboðaliðum í litlum skömmtum fyrst um sinn, en skammtastærðirnar fara svo stigvaxandi og fjöldi sjálfboðaliðanna einnig. Ferlið er langt og strangt og búist er við að það muni taka upp undir áratug, sem er eðlilegur þróunartími fyrir lyf af þessu tagi. Við upphaf heimsfaraldursins í mars í fyrra var svo greint frá því að lyf EpiEndo gæti verið árangursríkt gegn veirum á borð við SARSCoV-2, betur þekkt sem kórónuveiran sem veldur COVID-19.

Nánar er fjallað um málið í tímariti Frjálsrar verslunar, sem kom út á dögunum og færst í verslun Pennans Eymundsson. Hægt er að gerast áskrifandi hér eða kaupa blaðið hér

Stikkorð: Epiendo