Nanom þróar svokallaða nanótækni til að auka virkni í rafhlöðum. Nanótækni og örefni eru notuð til að ná fram auknu yfirborðssvæði innan rafhlöðunnar til að geyma orku betur en áður hefur verið hægt. Einnig verður hægt að nota rafhlöðuna sem byggingarefni þeirra tækja sem hún knýr áfram. Fyrirtækið segir að nanórafhlöður séu líka með styttri hleðslutíma, kosti minna ásamt því að vera umhverfisvænni en hefðbundnar rafhlöður.

„Við sjáum fyrir okkur framtíð þar sem rafhlöður í símum endast í heilan mánuð og að fólk geti keyrt hringinn í kringum Ísland á einni hleðslu,“ nefnir Ármann Kojic, stofnandi og framkvæmdastjóri Nanom, sem dæmi um möguleika tækninnar.

Hann segir að fyrst um sinn verði hjá fyrirtækinu áhersla lögð á samstarf við framleiðendur hefðbundinna rafhlaða, m.a. vegna þeirra innviða sem þeir búa yfir. Nanom aðstoði þá við að laga galla í rafhlöðum og gera þær öflugri með sérhannaða nanóefninu. Ármann sér þó fyrir sér að Nanom muni framleiða sínar eigin vörur í framtíðinni sem verði álíka byltingarkenndar og það sem Tesla hefur gert fyrir rafbílinn.

„Til skamms tíma getum við haft áhrif á tæknina eins og hún er í dag en til lengri tíma stefnum við á að leiða bransann í átt að nýrri tegund af batteríum.“

Þó að Nanom sinni ekki framleiðslu á nanóefnum á Íslandi þá hefur fyrirtækið kannað, í samstarfi við háskólana, hvort hægt sé að koma upp aðstöðu fyrir framleiðsluna hér á landi. Ármann telur að slík aðstaða myndi skapa skilyrði fyrir tugi nýrra fyrirtækja á þessu sviði.

„Við sjáum fyrir okkar að nanóefni gæti orðið fyrir Ísland það sem kísill gerði fyrir Kísildalinn.“

Fundað með Gates, Bloomberg og Iger

Nanom, sem hét áður GreenVolt, er með starfsstöð í Palo Alto og í Vísindagörðunum í Grósku. Alls starfa fimmtán manns hjá fyrirtækinu í dag, þar á meðal vísindamenn á tilraunastofum erlendis. Fyrirtækið hefur fengið yfir þrjár milljónir dala í fjármögnun, eða rúmar 360 milljónir króna. Þar af fékk það 2,2 milljónir dala í þróunarstyrk frá Evrópusambandinu á síðasta ári.

Á meðal fjárfesta í Nanom er Iceland Venture Studio, Perkins Coie og fjárfestingarsjóðurinn Village Global, sem er m.a. fjármagnaður af Bill Gates og Jeff Bezos. Ármann segir að hjá Village Global komist Nanom í öflugt tengslanet spennandi frumkvöðla og fjárfesta sjóðsins. Stjórnendur Nanom hafi til að mynda fengið að hitta Gates, Michael Bloomberg og Bob Iger.

Nánar er fjallað um málið í tímariti Frjálsrar verslunar sem var að koma út. Hægt er að gerast áskrifandi hér eða kaupa blaðið hér .