Hátæknifyrirtækið Controlant hefur frá árinu 2007 þróað vöktunarlausnir sem koma í veg fyrir skemmdir á lyfjum og matvælum í allri virðiskeðjunni. Þannig tryggir fyrirtækið öryggi sjúklinga, minnkar sóun og aðstoðar viðskiptavini við að uppfylla reglugerðir. Með hitastigsvöktunar- og rekjanleikalausnum Controlant geta viðskiptavinir fyrirtækisins haft heildarsýn yfir virðiskeðjuna sína í rauntíma með notkun á þráðlausum skynjara, miðlægu gagnaskýi og vefviðmóti. Fyrirtækið er með starfsstöðvar hér á landi sem og í San Francisco.

Tækni Controlant hefur verið í lykilhlutverki í dreifingu Pfizer á bóluefni við COVID-19. Controlant býður upp á búnað til að geta fylgst stafrænt og í rauntíma með ástandi bóluefna Pfizer á meðan það er flutt en geyma þarf bóluefnið í 80 gráðu frosti. Fyrr á þessu ári sagði Guðmundur Árnason, fjármálastjóri Controlant, á fundi á vegum Samtaka iðnaðarins, að fyrir um ári hefðu stjórnendur Controlant áttað sig á að þeir væru með einu lausnina sem gæti nýst í að fylgjast með slíkum sendingum. Það hafi verið mikið kapphlaup að fullmóta kerfið áður en fyrstu leyfin fyrir notkun bóluefnisins voru gefin út í nóvember og desember á síðasta ári. Controlant lauk við vinnu á sex mánuðum sem áður stóð til að tæki tvö ár. „Við bættum í teymið mjög hratt á þessum tíma," sagði hann.

Hann sagði að lykilstarfsmenn hjá félaginu hefðu verið tilbúnir að vinna 300 til 400 klukkustundir á mánuði til að ná að ljúka við að þróa lausnina í tæka tíð því þeir hafi talið sig leika hlutverk sem skipti máli í baráttunni gegn veirunni. Kerfið hafi virkað það vel að 99,99% af bóluefninu hafi skilað sér óskaddað á áfangastað.

Fyrirtækið hafi vaxið hægt þar til á síðasta ári. Veltan fór úr 20 milljónum árið 2009 í 200 milljónir árið 2018. Á síðasta ári var hins vegar 132% tekjuvöxtur hjá félaginu og veltan nam nærri milljarði króna. Á þessu ári stefni svo í yfir 500% vöxt og veltan verði um 6 milljarðar króna.

Nánar er fjallað um Controlant og fleiri sprota á uppleið í tímariti Frjálsrar verslunar sem var að koma út. Hægt er að gerast áskrifandi hér eða kaupa blaðið hér .