*

föstudagur, 24. september 2021
Frjáls verslun 31. júlí 2021 19:01

Sprotar: Venjulegir peningar á bálkakeðjur

Monerium hefur nýverið tengt evrópsk greiðslumiðlunarkerfi og bálkakeðjur, sem beintengir bankareikninga við bálkakeðjuveski.

Ritstjórn
Starfsmenn Monerium. Framkvæmdastjórinn Sveinn Valfells er þriðji frá vinstri.
Aðsend mynd

Monerium er fjártæknifyrirtæki sem stofnað var árið 2016. Fyrir um tveimur árum síðan varð fyrirtækið það fyrsta, og enn sem komið er eina, í Evrópu til þess að öðlast leyfi til útgáfu rafeyris á bálkakeðjur, er Fjármálaeftirlitið veitti félaginu formlegt leyfi til slíkrar útgáfu.

Í samtali við Viðskiptablaðið á síðasta ári sagði Sveinn Valfells, framkvæmdastjóri og einn stofnenda Monerium, að fyrirtækið væri brautryðjandi í notkun bálkakeðja við millifærslu lögeyris líkt og dollars, evru og krónu. Allt frá stofnun hafi fyrirtækið unnið að því að tengja hefðbundna eignarflokka, líkt og gjaldmiðla og verðbréf, inn á bálkakeðjur.

Sveinn lagði áherslu á að rafeyrir væri ekki að það sama og rafmyntir, líkt og t.d. Bitcoin. Munurinn á rafeyri og rafmyntum felist í því að rafeyrir sé innleysanlegur fyrir venjulega peninga, til dæmis krónur, á meðan rafmyntir séu sýndarfé sem ekki sé innleysanlegt.

„Monerium er að heimfæra venjulega peninga yfir á bálkakeðju eins og þegar hefur verið gert með kort. Hins vegar eru rafmyntir, líkt og Bitcoin, óinnleysanlegt sýndarfé sem sveiflast í verði."

Sveinn segir að vegferð Monerium sé rétt að byrja. Nú nýlega hafi fyrirtækið hleypt af stokkunum gátt á milli evrópskra greiðslumiðlunarkerfa og bálkakeðja, sem beintengi bankareikninga á evrusvæðinu við bálkakeðjuveski.

„Þetta gerir fólki kleift að flytja evrur, á örfáum sekúndum með litlum sem engum tilkostnaði, af bankareikningi yfir á veski á bálkakeðju og aftur til baka. Við höfum þegar hafið samstarf við nokkur evrópsk fyrirtæki á þessu sviði, sem flest hver hafa það að markmiði, líkt og við, að koma hefðbundnum eignarflokkum yfir á bálkakeðjur."

Nánar er fjallað um málið í tímariti Frjálsrar verslunar sem var að koma út. Hægt er að gerast áskrifandi hér eða kaupa blaðið hér