Brunnur vaxtarsjóður, samlagshlutafélag sem fjárfestir í sprota- og vaxtarfyrirtækjum og er í rekstri Landsbréfa og Brunns Ventures, hagnaðist um 424 milljónir króna á síðasta ári, samanborið við 75 milljóna króna hagnað árið áður. Þetta kemur fram í ársreikningi sjóðsins.

Hreinar fjárfestingatekjur sjóðsins námu 517 milljónum króna, samanborið við 167 milljónir árið áður. Eignir Brunns námu ríflega 3,2 milljörðum króna og eigið fé nam 3,2 milljörðum króna í árslok 2020.

Brunnur á eignarhluti í tíu félögum sem flest eru skráð með heimkynni á Íslandi en tvö félaganna eru skráð með heimkynni erlendis, Oculis og Avo, en umrædd félög eru stofnuð af Íslendingum. Gangvirðisbreytingar á hlutum sjóðsins í félögunum voru jákvæðar um 519 milljónir króna og lagði sjóðurinn félögunum til 201 milljón króna með kaupum á bréfum og 40 milljónir í formi lána til tengdra aðila.