„Er það þannig að Álfheiður Ingadóttir stjórni Alþingi?“ var spurt á Alþingi í dag þegar þingmenn deildu um ástæðu þess að síðari umræða um þingsályktunartillögu Sivjar Friðleifsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, um forvirkar rannsóknarheimildir var tekin af dagskrá þingsins í dag. Um stundarsakir lá ekki ljóst fyrir við hvern var að sakast, þ.e. hver það var sem fór fram á að málið yrði tekið af dagskrá.

„Þetta er ekki nýtt mál og löngu tímabært að taka það í umræðu,“ sagði Siv og spurði Álfheiði að því hverju hafi sætt. „Er það þannig að Álfheiður Ingadóttir stjórni  Alþingi Íslendinga? Það er ekki hægt að vinna eins og hér er gert,“ sagði Siv og var ósátt.

Hélt að Ögmundur yrði í útlöndum

Álfheiður, sem er þingmaður þingflokks VG, svaraði því til að hún hafi óskað eftir því við forseta Alþingis og formenn flokkanna að málinu yrði frestað 20. febrúar og að það yrði tekið af dagskrá. Ástæðuna sagði hún þá að hún hafi búist við að Ögmundur yrði ekki á landinu þegar umræðan var á dagskrá og vildi hann taka þátt í henni.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Siv bentu á að ekki hefði átt að taka málið af dagskrá þar sem Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra var í salnum og hafi hann haft marga daga til að kynna sér þingsályktunartillöguna. Þrátt fyrir að Ögmundur hefði blandað sér í umræðurnar var málið engu að síður tekið af dagskrá.