Að Íslandi hafi tekist að gefa út skuldabréf í erlendri mynt á þessu ári kom mörgum á óvart og vakti athygli. Þetta sagði Ingvar Ragnarsson, sérfræðingur í fjármögnun og skuldastýringu hjá fjármálaráðuneytinu, á Fjármálaþingi Íslandsbanka í gær. Á ráðstefnunni greindi Ingvar frá atburðarásinni frá því að hafist var handa við undirbúning útboðsins og þar til því lauk í byrjun síðasta sumars.

Ingvar hóf mál sitt á að segja frá stuttri frétt í vikuritinu Euroweek, sem fjallar um hlutabréfa- og skuldabréfamarkaði. Í júní 2010 var haft eftir ónefndum evrópskum miðlara „að þegar litið er til þess sem er að gerast í Evrópu þá get ég ekki séð nokkra einustu ástæða fyrir því að nokkur fjárfestir ætti að kaupa skuldabréf Íslands". Á sama tíma og greinin birtist voru Ingvar og aðrir sem komu nærri útgáfunni að ferðast um Evrópu og Bandaríkin, í þeim tilgangi að kynna hana.

Ingvar sagði orð miðlarans lýsa því ágætlega hvernig viðhorfið var til Íslands á árunum 2009, 2010 og jafnvel á þessu ári einnig. Um mitt ár 2010 hóf ráðuneytið viðræður við tengiliði sína í erlendum bönkum um mögulega útgáfu á alþjóðlegum mörkuðum. „Það voru alls konar viðbrögð sem við fengum við þeirri hugmynd. Sumir höfðu enga trú á útgáfunni," sagði Ingvar í erindi sínu í gær.

Sögðu sögu Íslands

Ráðuneytið gekk út frá því að það væri nauðsynlegt að byggja nýjan fjárfestahóp frá grunni. Þriðji ársfjórðungur síðasta árs fór í að kortleggja markaðinn, og fylgjast með útgáfum ríkja með svipaða lánshæfiseinkunn og Ísland.

„Á sama tíma byrjum við að setja saman íslensku söguna. Segja frá því hvað gerðist hér, hvernig var brugðist við, hver framgangur hefur orðið og hverjar áskoranirnar eru enn í dag," sagði Ingvar og bætti við að ferlið sé mikilvægt  fyrir alla útgefendur, sérstaklega við núverandi aðstæður sem eru verri en þær voru þá. Í tilviki Íslands þurfi sagan að vera sögð af Íslendingum.

Ingvar sagði að á fundum með fjárfestum hafi verið lögð áhersla á að aðgreina Ísland frá Evrópu. „Það sem mest var öðruvísi á Íslandi var að Ísland á ekki í skuldavanda, sem er stóra krísan í Evrópu. Hér varð bankakrísa og gjaldeyriskrísa, en engin skuldakrísa."

Sífellt spurt um Icesave

Alls hittu Ingvar og hans samstarfsmenn um 100 fjárfesta. Hann sagði að á fundunum hafi sömu spurningar verið spurðar aftur og aftur. Spurt var um efnahagsáætlunina, hagvaxtahorfur, tækifæri í lykil atvinnugreinum og gjaldeyrishöftin. „Það sem kom upp á hvaða einasta fundi, þó það hafi að lokum haft minni áhrif en við óttuðumst, var Icesave-málið," sagði Ingvar. Hann sagði að sífellt hafi þurft að skýra frá stöðu málsins.

Þegar málinu var svo hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu var send út tilkynning um að ríkið sé tilbúið að greiða upp allar skuldir sem falla á gjalddaga 2011 og 2012. Ingvar sagði að eini og helsti tilgangur yfirlýsingarinnar hafi verið að markaðssetja nýju skuldabréfaútgáfuna. Tilgangurinn var að senda út skilaboð um að ríkið styðji við útgáfuna, og að „nei" í þjóðaratkvæðagreiðslunni setji ekki strik í reikninginn.

„Comeback kid"

Ingvar sagði markmið útgáfunnar skýra. Að opna markaði fyrir Ísland, til að fjármagna lán AGS og önnur lán á alþjóðlegum mörkuðum. Síðsta markmiðið í hans huga var að fjármagna skuldir sem væru á gjalddaga. Aldrei hafi verið hætta á greiðslufalli, nægt fé er til í gjaldeyrisforðanum, sagði Ingvar.

Hann endaði erindi  sitt á að vísa í aðrar greinar sem birtust í Euroweek, eftir að skuldabréfaútboðinu lauk. Þá var sagt að „útgáfa Íslands er dæmi um einhverja best heppnuðu útgáfu í ár" og Ísland kallað endurkomu-krakkinn, eða „comeback-kid" á síðum blaðsins. Eftirspurn eftir bréfum Íslands var tvöfalt meiri en framboð bréfanna, og voru um 85% kaupenda eignastýringafélög og tryggingafélög. Um 8% kaupenda voru vogunarsjóðir.

Ingvar sagðist ekki geta lofað því að útgáfur næstu ára myndu heppnast með sama hætti. Hann gæti þó lofað því að eins yrði staðið að málum.