Í ræðu sinni á Viðskiptaþingi sagði Tómas Már Sigurðsson, formaður stjórnar Viðskiptaráðs Íslands, að íslenskt atvinnulíf væri í viðkvæmri stöðu um þessar mundir. Tómas sagði að átján mánuðum eftir hrun íslenska bankakerfisins sé ljóst að afleiðingar þess eru verulegar, og teygja sig um alla anga samfélagsins.

„Það hefur gengið illa að blása lífi í atvinnulífið að nýju, stöðugt fleiri fyrirtæki verða gjaldþrota og fjöldamörg störf hafa tapast," sagði Tómas Már. Hann sagði að það væru einkum tvær ástæður fyrir því að það þyrfti að svara þessari spurningu.

„Annarsvegar þarf að horfa til afleiðinga bankahrunsins á rekstrarumhverfi fyrirtækja, sem vega verulega að framtíðargrundvelli þeirra. Hinsvegar, og ekki síður mikilvægt, eru uppi áleitnar spurningar um framtíð atvinnurekstrar vegna þess viðhorfs til atvinnulífs sem gætir af hálfu stjórnvalda.

Þær aðgerðir sem stjórnvöld boða til lausnar á vanda hagkerfisins vekja upp spurningar hvort þar á bæ skilji menn mikilvægi verðmætasköpunar og hagvaxtar. Á stundum mætti jafnvel ráða af umræðunni að stór hluti atvinnulífs sé annað hvort talinn óþarfur eða óæskilegur. Samskipti atvinnulífs og stjórnvalda hafa um of einkennst af tortryggni og takmörkuðum samstarfsvilja. Undir þessum kringumstæðum er ekki óeðlilegt að forsvarsmenn atvinnurekstrar á Íslandi spyrji um framtíð og hafi af henni nokkrar áhyggjur," sagði Tómas Már