Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, formaður stjórnar Tryggingamiðstöðvarinnar, sagði í ræðu á aðalfundi félagsins í gær að taka verði ákvarðanir um hvort félagið verði skráð áframí Kauphöllinni. Eins og staðan er nú uppfyllir félagið ekki skilyrði um dreifða eignaraðild.

Í ræðu sinni sagði Gunnlaugur Sævar "félagið uppfyllir að svo stöddu ekki skilyrði Kauphallar um dreifða eignaraðild. Það er því mikilvægt fyrir félagið að á þessu ári verði teknar ákvarðanir sem snúa að þessu máli ? það er hvort félagið hyggst áfram vera skráð í Kauphöll ? eitt íslenskra tryggingafélaga en óneitanlega fylgja því bæði kostir og gallar. Kostirnir eru vitaskuld augljósir fyrir hluthafa hvað það varðar að eiga hluti sem skráðir eru á markaði en hugsanlegir gallar þeir að þurfa að lúta strangari reglum um almenna upplýsingagjöf á þeim sama markaði umfram keppinautana."

Samkvæmt ársreikningi TM eru tveir hluthafar með liðlega 66% hlutafjár. Fram ehf. sem er eignarhaldsfélag Guðbjargar Matthíasdóttur og fjölskyldu, er með 33,17% og Sund með 32,97%.

Aðalfundurinn samþykkti að greiða 1.809 milljónir króna í arð eða 2 krónur pr. hlut. Í stjórn félagsins voru kosnir: Jón Krisjánsson, Geir Zoega, Guðbjörg M. Matthíasdóttir, Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson og Páll Þór Magnússon. Varamenn eru Birgir Ómar Haraldsson og Sindri Sindrason.

Gunnlaugur Sævar var endurkjörinn formaður og Guðbjörg varaformaður stjórnar.