Útprent úr símtali Árna Mathiesen, fjármálaráðherra, og Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, sem birt var í Kastljósi á dögunum sýnir að mati breska blaðsins Telegraph að Darling vissi af vandræðum íslenskra banka vikum fyrir hrun þeirra.

Þegar breska fjármálaráðuneytið greip til aðgerða gegn íslensku bönkunum sagðist það hafa brugðist hratt við og af röggsemi.

Í útprenti af símtali ráðherranna segir Darling hins vegar að Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, hafi gefið sér rangar upplýsingar um ástand íslensku bankanna nokkrum vikum fyrir fall þeirra.

Darling trúði Björgvini hins vegar ekki að sögn Telegraph og lýsti yfir áhyggjum sínum af stöðu bankans í London.

„Ég veit það en ég verð að segja eins og er að þegar ég hitti kollega þína og þá hina, þá í raun kemur í ljós að það sem okkur var sagt reyndist ekki rétt. Ég hafði mjög miklar áhyggjur af stöðu bankans í London og þeir héldu áfram að segja að það væri ekkert að óttast,“ sagði Darling í umræddu símtali.

Talsmaður Frjálslyndra demókrata í Bretlandi, Vince Cable, segir þessa uppljóstrun vera „afar óþægilega“ og kallar eftir því að Alistair Darling skýri mál sitt.

„Ef það er satt að bresk stjórnvöld hafi vitað af þessum vandamálum og dregið ábyrgðir Íslands í efa þá breytir það miklu um hver ber ábyrgð á tjóni sparifjáreigenda. Darling verður að skýra mál sitt,“ hefur Telegraph eftir Cable.

Frétt Telegraph.