Aðalmeðferð í máli Sævars Jóns Gunnarssonar gegn Landsbankanum verður í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Sævar Jón höfðaði málið árið 2013 vegna 630 þúsunda króna verðtryggðs lán sem tekið var árið 2008. Málið fór fyrir EFTA-dómstólinn, sem í nóvember sl. komst m.a. að þeirri niðurstöðu að ólögmætt væri að miða við 0% verðbólgu í lánssamningum.

Lán Sævars Jóns var neytendalán. Neytendalánatilskipunin var innleidd hér árið 1993 og árið 2001 voru fasteignalán felld undir neytendalánalögin. Mál Sævars Jóns mun því hafa áhrif á öll verðtryggð neytendalán frá árinu 1993, þar sem miðað var við 0% verðbólgu í lánasamningnum.

Talið er að á bilinu 90% til 95% verðtryggðra lánasamninga hérlendis séu með þessum skilmálum. Heildarfjárhæð verðtryggðra lána til einstaklinga nemur um 1.500 milljörðum króna og er langstærsti hlutinn húsnæðislán.

Björn Þorri Viktorsson flytur málið fyrir Sævar Jón en Aðalsteinn Egill Jónasson er lögmaður bankans.