Ekki er víst hvort Iceland Express, sem hyggst fljúga áætlunarflug til New York í Bandaríkjunum næsta sumar, hafi til þess tiltekin leyfi.

Til þess að fljúga áætlunarflug til Bandaríkjanna þarf tvenns konar leyfi. Annars vegar þarf leyfi íslenskra flugmálayfirvalda, sem aðeins eru veitt íslenskum flugfélögum, en hins vegar þarf leyfi frá samgönguyfirvöldum í Bandaríkjunum  (Department of transportation) til að bæði fljúga til Bandaríkjanna og eins til að selja flug út úr landinu.

Þannig getur flugrekandi, með íslenskt flugrekendaskírteini, sem hlotið hefur tilnefningu íslenskra stjórnvalda flogið með farþega og frakt til Bandaríkjanna frá Íslandi og öfugt. Hið sama gildir fyrir bandaríska flugrekendur.

Iceland Express er í þeim skilningi ekki flugfélag, þ.e. félagið hefur ekki flugrekstrarleyfi og er því ekki flugrekandi, en hingað til hefur breska flugfélagið Astraeus séð um flugrekstur félagsins.

Flugmálastjórn leitar svara

Í svari frá Flugmálastjórn Íslands, þar sem spurt var um heimild Iceland Express til þess að fljúga áætlunarflug til Bandaríkjanna, kemur fram að Flugmálastjórn mun á næstu dögum senda forsvarsmönnum Iceland Express fyrirspurn þar sem óskað er eftir upplýsingum um það hvaða flugrekandi muni fljúga fyrir félagið til Bandaríkjanna.

Þá kemur jafnframt fram að miðað við núverandi loftferðasamning milli Bandaríkjanna og Íslands hefur hinn breski flugrekandi Astraeus ekki heimild til slíks flugs.

Þá er jafnframt tekið fram að Ísland er ekki enn þá orðinn formlegur aðili að hinum svokallaða „Open Skies“ loftferðarsamningi milli Bandríkjanna og Evrópusambandsins. Með þeim samningi opnast flugleiðarnar.

Segjast hafa öll leyfi sem til þarf

Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express segir í samtali við Viðskiptablaðið að félagið hafi öll þau leyfi sem til þarf til að hefja áætlunarflug til Bandaríkjanna. Astraeus hafi leyfi til að fljúga frá hvaða áfangastað sem er innan EES svæðisins og til hvaða áfangastaðar sem er í Bandaríkjunum.

Því til staðfestingar fékk Viðskiptablaðið afrit af flugrekstrarleyfi Astraeus, sem heimilt er að nota vörumerkið Iceland Express. Þá segir Matthías að leyfinu fylgi réttindi til að selja miða frá Bandaríkjunum.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að þrátt fyrir að Astraeus hafi leyfi til að fljúga frá Evrópu til Bandaríkjanna gildi það aðeins um ESB ríki, ekki EES ríkin Noreg og Ísland. Þá breyti það því ekki að íslensk flugmálayfirvöld þurfi engu að síður að gefa út leyfi, til að flogið sé áætlunarflug til Bandaríkjanna.

Segir söluna hafa gengið fram úr væntingum

Matthías segir sölu farmiða til New York hafa gengið fram úr væntingum. Nú þegar sé búið að selja um 50% þeirra miða sem áætlar var að selja frá Íslandi en þá sé sala erlendis einnig að taka hratt við sér.

„Það er því ljóst að við komum til með að selja um tvöfalt, jafnvel þrefalt magn miða frá Íslandi miðað við það sem við ætluðum okkur,“ segir Matthías.

Samkvæmt sumaráætlun Iceland Express verður flogið fjórum sinnum í viku til New York. Aðspurður um flug næsta vetur segir Matthíaas að enn eigi eftir að koma í ljós hversu vel flugið gengur, þó megi reikna með að eitthvað verði flogið til New York næsta vetur þó það verði ekki jafn oft og í sumar. Þá segir Matthías jafnframt að verið sé að skoða fleiri áfangastaði í Bandaríkjunum.

Aðspurður um reksturinn almennt segir Matthías að hann gangi vel. Þetta sé búið að vera gott ár, þá sérstaklega sumarið og haustið. Þá segir Matthías, aðspurður, að eigið fé félagsins sé gott og þannig verði það líklega áfram. Matthías segir að ef til þess kæmi að það verði ekki í lagi þá hafi, á síðasta aðalfundi félagsins, verið samþykkt heimild stjórnar til að sækja hlutafé ef á þyrfti að halda.