Dagur B. Eggertsson borgarstjóri greindi frá því á Facebook síðu sinni að borgarráð ákvað á fundi sínum í gær að úthluta Brynju, hússjóði Öryrkjabandalagsins, lóð fyrir 37 íbúða fjölbýlishús á Kirkjusandi.

Þar setur Steinunn Valdís Óskarsdóttir, fyrrverandi borgarstjóri og þingmaður Samfylkingarinnar, inn athugasemd og spyr Dag B. gagnrýnna spurninga.

Meðal annars bendir hún á að samkvæmt auglýstu deiliskipulagi séu 300 íbúðir á reitnum og segir að Reykjavíkurborg hafi forræði á um 150 íbúðum.

„Borgin hefur nú úthlutað 37 til Brynju, hússjóðs ÖBÍ, 30 fara til Félagsbústaða og 63 fara til Bjargs sem er leigufélag ASÍ og BSRB. (þó það teljist almennar íbúðir er markhópurinn væntanlega mjög tekjulágt fólk) Samtals 130. Ríflega 40 prósent af húsnæðinu á reitnum fer því að einhverju leyti undir félagslegt húsnæði eða leiguhúsnæði.

Fór fram greining á félagslegum áhrifum þess að hafa samsetninguna með þessum hætti? Þar sem ég bý í hverfinu, sit í sóknarnefnd og læt mig velferð hverfisins varða hef ég um nokkra hríð verið hugsi yfir þessu. Fjölbreytt búsetuform og blöndun er lykilatriði í því hversu vel tekst til innan hverfa borgarinnar í íbúasamsetningu. Er hægt að sjá einhvers staðar greiningu eða útreikninga með tilliti til skóla, leikskóla og annarra innviða svæðisins,“ spyr Steinunn Valdís.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur svarað Steinunni sjá hér.