Eiríkur Tómasson, framkvæmdastjóri Þorbjarnar hf. í Grindavík og varaformaður LÍÚ, spyr hvort eigendur stóru viðskiptabankanna hafi hvatt starfsfólk sitt vísvitandi til þess að selja útflutningsatvinnuvegunum og lífeyrissjóðum í landinu gjaldeyrisskiptasamninga, þar sem staða var tekin með krónunni?

Hann spyr einnig hvort þeir hafi svo sjálfir unnið að því að fella gengi krónunnar með verulegum hagnaði og vógu þannig að sjávarútvegsfyrirtækjum, lífeyrissjóðunum og íslensku þjóðinni um leið?

Þessum spurningum og fleiri velti Eiríkur upp í ræðu á fundi auðlindahóps Evrópunefndar Sjálfstæðisflokksins í Valhöll í gær en frá þessu er greint á vef LÍÚ.

Hann sagði það víðtæka skoðun þeirra sem gerðu þessa samninga við bankana, sem allir urðu fjármálakreppunni að bráð, að þar hefði verið „maðkur í mysunni.“

Sjá nánar á vef LÍÚ.