Wow kann að verða ferðaskrifstofa sem selur farmiða fyrir flugfélög sem Indigo Partners er hluthafi í, á borð við Wizz Air og Frontier Airlines, gangi áform Indigo Partners um fjárfestingu í Wow air eftir. Þessi framtíðarsýn fyrir Wow Air er útlistuð í pistli á vef Forbes.

Í pistlinum veltir Samuel Engel, sérfræðingur málefnum flugfélaga, hver framtíð Wow verði. Lítið hefur verið gefið upp um hvernig viðræður ganga um fyrirhugaða fjárfestingu Indigo Partners í Wow air. Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi Wow air, og Bill Franke, forstjóri Indigo Partners, sögðu viðræðurnar ganga vel í yfirlýsingu sem þeir sendu út á miðvikudaginn. Þó ætti enn eftir að finna lausn á nokkrum atriðum á borð við leiðakerfi Wow, flugflota félagsins og ná samningum við skuldabréfaeigendur Wow air.

Bent er á í pistlinum að Indigo Partners hafi gengið mjög vel að innleiða ofurlággjaldarekstrarlíkan sitt. Fari Wow sömu leið sé líklegt að það muni hætta notkun breiðþotna sinna og hætta lengri flugferðum, til að mynda til Indlands. Hins vegar sé önnur leið möguleg, að Wow air verði það sem Engel kallar „sýndarflugfélag“ (e. virtual airline). Gangi það eftir muni Wow ekki fljúga eigin flugvélum heldur einungis selja farmiða og verði því nokkurs konar ferðaskrifstofa.

Með þessu móti gæti Wow til að mynda selt farmiða með Frontier frá Bandaríkjunum til Íslands, og með Wizz air frá Íslandi til Evrópu. Bent er á að Wizz er sé með einn lægsta einingarkostnað meðal flugfélaga í Evrópu, sambærilegan við Ryanair eitt stærsta ofurlággjalda flugfélag heims. Þá sé einingarkostnaður Frontier jafnvel lægri en hjá Wizz.

Þá mætti fljúga á milli Íslands og annarra landa með töluvert lægri kostnaði en Wow air gerir í dag og mun ódýrari hætti en keppinauturinn Icelandair. Þá geti Wow air einnig tekist betur á við árstíðasveiflu í ferðamennsku þar sem flugfélagið þurfi ekki að finna verkefni fyrir flugvélaflota félagsins yfir vetrarmánuðina, þegar ferðamönnum fækkar.